Markmið í sóttkví

Við erum að ganga í gegnum svo ótrúlega skrítna tíma. Það getur verið krefjandi að vera jákvæður og það getur verið erfitt að vera fastur heima. 

Mig langar til að deila með ykkur markmiðum sem ég er búin að vera að punkta hjá mér ef það skyldi koma að því að ég myndi fara í sóttkví á næstu dögum. 

Eins og alltaf í markmiðasetningu þá viljum við halda okkur við 1-3 markmið á viku, ef ég klára þau markmið ÞÁ bæti ég við fleiri markmiðum. Ég myndi aldrei fara inn í vikuna með öll þessi markmið hér að neðan. Ég myndi velja mér kannski 1 markmið í hverjum hluta eða jafnvel færri. Ef ég veit að þetta er eitthvað sem ég á mjög auðvelt með að viðhalda þá mögulega fer ég umfram 3 markmið en ekki setja þér meira en 3 markmið sem þú telur að þér eigi eftir að finnast krefjandi að standa við. 

Byrjum smátt og bætum ofan á það.

Þetta eru bara hugmyndir - þú getur breytt markmiðunum svo þau henti þér og þínum áhugamálum eða þú getur nýtt þær beint ef þér finnst þær höfða til þín. Þú getur líka notað hugmyndirnar til að veita þér innblástur í þinni markmiðasetningu. 

Ég vona að þér gangi vel að halda líkamlegri og andlegri heilsu í góðu jafnvægi á þessum tímum. 

Líkamleg markmið:
- 50 hnébeygjur á dag 
- 10 armbeygjur á dag 
- Æfa höfuðstöður eða handstöður í 5-15 mínútur á dag 
- Planki í 30 sek - 3 sett á dag 
- Halda mig við Core-one 30 daga plankaáskorun frá Hilmari (í highlights á Instagram hjá @hilmararnarson) 
- Yogaflæði 3 x í viku - finna flæði á YouTube og fylgja
- Velja eina teygju sem ég vil ná dýpra í og halda í amk 5 mín á dag í eina viku
- Fara í 30 mín göngutúr á dag 

Matarræði:
- Drekka 4 fulla Absolute Training brúsa af vatni á dag (brúsinn er 0,5 lítrar) 
- Taka vítamín daglega
- Borða amk 1 ávöxt á dag / amk 1 grænmeti á dag 
- Borða 3x yfir daginn - halda matarvenjum í nokkuð góðri rútínu

Andleg markmið:

- Hlusta á 4 podcöst í viku
- Skjátími í síma að hámarki 2 tímar
- Lesa í 30 mín á dag 
- Skrifa í 10 mín á dag, allt sem mér dettur í hug, tilfinningar mínar, hugmyndir og pælingar. Ég gerði þetta á Bali, ég var að upplifa kvíða og ótta fyrstu vikuna mína og þetta hjálpaði mér ótrúlega mikið. 
- Hringja í eina vinkonu/vin á dag - Skrifa þakklætislista með 10 atriðum daglega
- Hrósa amk 1x á dag
- Segja 3 jákvæða hluti við sjálfa mig í spegilinn á dag
- Setja á mig maska 3 x í viku

 

Áhugamál:

- Skoða gamlar myndir
- Panta persónuleg afmæliskort fram í tímann fyrir afmælisbörn næstu mánaða (mæli með Prentagram) - svo getur þú fengið einhvern sem er ekki í sóttkví til að sækja þau fyrir þig og jafnvel byrjað að skrifa á þau - eitthvað sem maður gerir alltaf á síðustu stundu
- Spila á hljóðfæri / læra á hljóðfæri í 30 mín á dag - 2x í viku - Skrifa niður hugmyndir sem mig langar til að framkvæma - smá brainstorm
- Skrifa niður bucketlista 
- Horfa á 5 ræður í viku á YouTube frá fólki sem ég lít up til / Ted Talks
- Skrifa niður fjöll sem mig langar til að ganga í sumar
- Gera eina Sudoku á dag
- Klára 1 púsl á viku
- Hafa samband við einhvern sem ég hef ekki heyrt í lengi  

Skipulag:

- Fara yfir ársmarkmiðin mín - hvernig er búið að ganga hingað til og hvernig sé ég fyrir mér næstu mánuði eftir að þetta ástand er yfirstaðið
- Taka til í fataskápnum, setja föt í poka sem ég vil losa mig við 
- Flokka myndir í símanum í albúm og eyða myndum 
- Búa til / finna matarprógram sem ég vil fylgja þegar ég losna úr sóttkví
- Taka 1 klst í viku og endurskoða fjármálin - stöðu lána (vexti og mánaðarlegar greiðslur, skoða hvort það væri sniðugt að gera einhverjar breytingar), eyðslu síðustu viku, ógreidda reikninga og endurskoða reglulega reikninga hvort þeir séu að hækka eða hvort það sé eitthvað á þeim sem á ekki rétt á sér 
- Fara í gegnum eina skúffu í viku - henda, endurraða

 

 

 

 

 

 

Leave a comment

Name .
.
Message .

Please note, comments must be approved before they are published