Fjármála febrúar

Mig langar til að deila aðeins með ykkur hugmyndinni minni um "fjármála-febrúar". Mér finnst ótrúlega gaman að koma auga á hluti sem valda mér streitu, óþægindum, leiðindum og svona þessum verri tilfinningum í lífinu. Þegar ég kem auga á svona atriði í lífinu, þá reyni ég að setja mér markviss markmið og hægt og rólega gera þessi verkefni skemmtilegri, auðveldari, aðgengilegri og afslappaðri. Málið með þessi verkefni er að við eigum það til að forðast þau, einmitt útaf því að þau valda okkur þessum verri tilfinningum. 

Við eigum akkurat að gera það ÖFUGA, a.m.k. ef þetta eru hlutir sem að verða að vera hluti af lífi okkar eða þá að við höfum mjög gott af því að þeir séu hluti af lífi okkar. 

Hvað er það ÖFUGA við að forðast hluti? Í mínum huga er það að fara ALL IN.

Fjármál áttu það til að valda mér stressi, hvort sem það kom að yfirdrættinum, reikningunum eða skattskýrslunni. Það kom alltaf smá hnútur í magann og mig langaði mest til að einhver myndi sjá um þessi mál fyrir mig frá A-Ö. 

Fyrir nokkrum árum þá ákvað ég að fara að skoða fjármálin mín betur. Ég vissi hreinlega ekki hvernig ég ætti að byrja, eins og manni líður svo oft þegar maður er að byrja að vinna í átt að einhverjum nýjum markmiðum eða breyttum venjum. 

Þegar ég byrjaði að vinna í mínum fjármálum þá voru þetta meðal annars hlutir sem áttu sér stað: 

  • Símtal við RSK þar sem ég spurði að öllum mögulegum spurningum, fékk svör sem ég skil ekki og spurði enn fleiri spurninga út frá svörunum. Ein spurningin var "Hvað er staðgreiðsla?" sem er greinilega samheiti yfir skatt (don't ask me why!) Konan hjá RSK hafði ekki alveg húmor fyrir þessu símtali og ég var að fara langt út fyrir þægindarammann með að kyngja stoltinu og líða eins og ég vissi ekkert í minn haus. Við erum öll þar á einhverjum sviðum. 
  • Fara yfir kreditkorta og debitkorta yfirlitin... úff hvað maður getur eytt í suma hluti, það var mjög óþæginlegt að horfast í augu við það fyrst. Ég skoðaði líka einu sinni Meniga appið og hvað maður er helst að eyða í, það var svolítið erfitt að sjá summurnar. 
  • Skoða bækur sem tengjast fjármálum sem ég gæti mögulega komist í gegnum vitandi ekki hvað "staðgreiðsla" þýddi. Sjálfstraustið var ekki mjög mikið. 
  • Googla ráð
  • Hlusta á Podköst
  • Horfa oft á Fóstbræðra-atriðið með endurskoðandanum. Maður verður að hafa smá húmor þegar maður er að reyna að gera svona leiðinleg verkefni, áhugaverð og skemmtileg. 
  • Skoða venjur sem ég myndi vilja skapa mér sem tengjast fjármálum.

 

Núna, 5 árum seinna, þegar ég er aðeins komin áleiðis inn í þetta verkefni að skilja fjármálin mín betur, þá er ég komin með bækur, Podcöst, venjur og heilmikla þekkingu sem gera þetta verkefni svo miklu skemmtilegra. Því jú kenningin okkar í Absolute Training er að "Allt sem við erum léleg í finnst okkur leiðinlegt og allt sem við erum góð í finnst okkur skemmtilegt". Út frá þessu hef ég tileinkað mér að þjálfa mig í að verða BETRI í því sem mér finnst leiðinlegt og athuga hvort það verði þannig skemmtilegra, í öllum tilfellum hingað til, þá hefur það ekki klikkað. 

Mig langar því að deila með ykkur því sem ég hef gert til að verða betri í fjármálum

  1. Ég las bókina Rich Dad Poor Dad - hún hafði mikil áhrif á það hvað ég eyddi peningnum mínum í og viðhorfið mitt til peninga. 
  2. Ég byrjaði að hlusta á "Leitin að peningunum" Podcastið - mæli mikið með. Þættirnir eru fjölbreyttir og þú finnur hvað höfðar til þín. Ég set link á þátt þar sem spjallað er um bókina Rich Dad Poor Dad. 
  3. Ég hef verið með "Fjármála-febrúar" á hverju ári, þar sem árið á undan er liðið og það á að skila skattskýrslu þess árs í mars. Það er mjög gott til að minnka stress að vera byrjuð að undirbúa skattskýrsluna sína með góðum fyrirvara. Þeir sem eru launþegar í föstu starfi eru flestir með mjög einfaldar skattskýrslur sem er frábært, en það er þó margt sem er mikilvægt að skoða á skattskýrslunni og því ekki vitlaust að skrá sig inn á RSK.is í tæka tíð, byrja að lesa sig til um skýrsluna og skoða reitina. Ekki loka augunum gagnvart skattskýrslunni ykkar bara því hún virðist löng og flókin. Byrjaðu bara á að skoða hana létt og skoðaðu svo meira með hverju árinu. 
  4. Ég skoða "Helstu tölur" á RSK.is. Ef þú ýtir á linkinn þá getur þú valið ártal, 2020/2021/2022 t.d. Helstu tölurnar eru skattaþrepin fyrir hvert ár ásamt persónuafslætti. Ég er t.d. alltaf mjög vakandi fyrir því í lok árs hvort ég sé búin að fullnýta persónuafsláttinn. Passið að athuga það helst í október/nóvember á hverju ári svo þið getið þá fullnýtt afsláttinn í útborguninni ykkar í desember. 
  5. Kíki reglulega (flestar venjur reyni ég að gera amk mánaðarlega) í "Rafræn skjöl" í heimabankanum og skoða þar reikninga sem ég hef fengið frá fyrirtækjum og fleiri skjöl sem leynast þar. 
  6. Kíki reglulega á þau lán sem ég er með, skoða eftirstöðvar af höfuðstól (finnst hvetjandi að sjá hann lækka) og skoða vextina sem ég er að greiða. Þú vilt vera meðvituð/meðvitaður um hverjir vextirnir eru á lánunum þínum, hvort þú sért með verðtryggt (þar sem höfuðstóll hækkar með verðbólgu)/óverðtryggt lán (þar sem höfuðstóll helst óbreyttur - en lækkar þegar þú greiðir hann niður), fasta eða breytilega vexti og þessháttar. 
  7. Í upphafi hvers árs kaupi ég nýja möppu fyrir mitt persónulega bókhald og eina möppu fyrir hvert fyrirtæki. Lykillinn að góðu bókhaldi og góðum fjármálum er skipulag. Það gerir þetta líka miklu skemmtilegra eftirá!
  8. Hringi reglulega í bankann, RSK, endurskoðandann minn ef það er eitthvað sem ég skil ekki.

Viðbót 2023

  1. Skoða Ísland.is og ný skjöl sem hafa borist þangað 
  2. Vera vakandi fyrir breytingum í lífinu sem hafa áhrif á fjármál, eins og að skrá sig í hjónaband, sambúð, eignast barn eða annað 
  3. Ég hef verið að skoða hvað stéttarfélög sem ég hef rétt á að greiða í og vera í bjóða uppá og útfrá því meta hvaða félögum ég vil vera með aðild í

Eftir að ég byrjaði í þessu fjármála stússi þá hefur áhugi minn aukist til muna, sérstaklega þar sem ég sé ávinninginn á því að vera með fjármálin sín á hreinu svo augljóslega. Ég fór úr því að útvista skattskýrslunni minni, uppgjöri fyrirtækjanna minna í það að vinna ársreikninga fyrirtækjanna ásamt bókaranum mínum og vera með fingurna ofan í öllu þegar kemur að skattskýrslunni minni. Það er lykilatriði að vera með fagfólk í þessum málum en það eru gífurleg verðmæti í því að skilja hvað er verið að gera. 

Í dag er ég komin í MBA nám þar sem allir uppáhalds áfangarnir mínir snúa að bókhaldi og fjármálum. Það er ótrúlegar margt sem ég get bætt og lært.

Það sem ég vona að þú fáir út úr þessu bloggi eru ráð og hvatning til að skoða fjármálin þín. Það mun borga sig!

Svo mikið af frábæru fólki á skilið endalausar þakkir fyrir að hafa kennt mér ótrúlegar margt og verið frábærar fyrirmyndir, þið vitið hver þið eruð. Eins og ég segi alltaf, við náum engum (eða allavega mjög fáum) markmiðum ein.

 

 

 

 

Leave a comment

Name .
.
Message .

Please note, comments must be approved before they are published