Absolute Viðtal - Elín Þórhallsdóttir

Næsti viðmælandi í Absolute Training blogginu er Elín Þórhallsdóttir.

Elín er 36 ára og hefur æft hjá Láru í Kringlunni meira og minna síðan í Júní 2019. Elín kom fyrst í prufutíma hjá Láru í maí 2019 og ákvað í kjölfarið að slá til og hefur ekki snúið við síðan. Ég fékk aðeins að spyrja Elínu um hennar reynslu af Absolute Training.

Elín á erfitt með að velja eina uppáhalds æfingu. ,,Góð spurning. Þriðjudagsæfingarnar eru oft alhliða styrktaræfingar og ótrúlega gott að byrja vikuna á þeim. En svo eru góðar paraæfingar virkilega skemmtilegar.”

Hvers vegna paraæfingar? ,,Sennilega vegna þess að partnerinn hjálpar manni að komast örlítið lengra og svo eru þær líka á föstudögum og það er gott að klára vikuna með góðum krafti.” Elín segir að eftirminnilegustu æfingarnar séu líklega spilastokkaæfingar ,,þá erum við nokkrar saman að klára æfingarnar og peppa hverja aðra áfram. Ef þið hafið áhuga á að prófa spilastokkaæfingu mæli ég með því að kíkja á Instagrammið okkar (@the_absolute_training) en þar er hugmynd af slíkri æfingu. 

 

Þegar við smellum okkur yfir í uppáhalds umfjöllunar efni í andlega þættinum segir Elín ,,þau hafa verið svo mörg, ekkert eitt sem stendur uppúr. Það sem hefur líklega mest áhrif er að segja sínar hugleiðingar upphátt, eða þær sem maður treystir sér til, og heyra annarra. Það hefur oftar en ekki víkkað sjóndeildarhringinn og hjálpað manni sjálfum”.

Eins og aðrir sem æfa hjá Absolute Training hefur Elín fengið góða þjálfun í markmiðasetningu. ,,Ég hef sett mér allskonar markmið meðal annars sem snúa að mataræði, svefni, hreyfingu og einkalífi. Sem dæmi að vera komin í ró og upp í rúm kl. 23:00 fjóra daga vikunnar , hringja í gamlar vinkonur og minnka skjátíma”. Hvaða ráð myndir þú gefa fólki sem er að byrja að setja sér markmið og langar að koma því í sínar vikulegu venjur? ,,Úff það er örugglega eitthvað. Galdurinn er að hafa markmiðin blönduð og hafa inn á milli markmið sem eru geranleg. Það er nefnilega fátt leiðinlegra en að finnast maður aldrei ná markmiðum. Sú tilfinning dregur virkilega úr manni. Hitt er að finna sér markmið sem eru aðlaðandi. Ég held að það sé mikilvægasta elementið í SMART formúlunni. Ef markmið er ekki aðlaðandi þá er svo auðveld að hundsa það, gleyma því eða bara ekki taka það alvarlega. Ef þú setur þér markmið að borða brokkolí þrjá daga í viku en þér finnst það bara alls ekki gott þá ertu aldrei að fara að gera það”. Elín segist vera að vinna í nokkrum markmiðum þessa dagana. ,,Í tengslum við hreyfingu þá langar mig að ná tökum á hlaupum og ná samfelldum 5 kílómetrum. Ég er reyndar að berjast við beinhimnubólgu þannig að ég þarf aðeins að meta hvernig ég næ því markmiði. Í einkalífinu er ég atvinnulaus en er að vinna að því að búa mér til tækifæri. Þannig að í einkalífinu er eitt stórt markmið í pípunum”. 

Áður en ég sleppi Elínu langar mig að vita hvað Absolute Training hefur gert fyrir hana. ,,Ég hef séð það svart á hvítu að ég get gert miklu meira í tengslum við hreyfingu en ég hélt ég gæti. Mér hefur til dæmis tekist að gera góða burpee, ótrúlegt en satt! En það þýðir ekki að mér finnist þær skemmtilegar. Svo er það þetta með að mæta þó maður sé í takmörkuðu stuðu. Maður tapar aldrei á æfingu og svo hefur verið svo góður andi í hópnum. Ég allavega upplifi mig hluta af heild og þykir vænt um samheldnina í hópnum”. “Ef ég ætti að lýsa upplifun minni af Absolute Training í einni setningu myndi ég segja: Kröftugar æfingar í góðum hópi sem stefnir að alhliða sjálfsstyrkingu, líkamlegum og andlegum”. 

 

Viðtal og myndir eftir Lilju Gísla @liljagislaLeave a comment

Name .
.
Message .

Please note, comments must be approved before they are published